Gögn og upplýsingar um losun og bindingu vegna landnotkunar eru háð meiri óvissu en gögn um aðrar uppsprettur, eins og t.d. losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum, enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum. Undanfarin ár hefur verið unnið að bættri gagnaöflun til að tryggja fullnægjandi og samanburðarhæf gögn og heldur sú vinna áfram. Á sama tíma hefur þó verið farið í umfangsmiklar aðgerðir til að bæta landnýtingu.
Skuldbindingar um samdrátt og bindingu hvers ríkis vegna landnotkunar eru reiknaðar út frá samræmdum forsendum, þar sem m.a. er litið til sögulegrar losunar og bindingar, og flatarmáli lands þar sem landnýtingu er stýrt (e. managed land). Ríkin skulu ná sameiginlega a.m.k. 310 milljóna tonna CO2íg. drætti í losun vegna landnotkunar árið 2030, miðað við losun á tilteknu viðmiðunartímabili. Ríki sem ná umfram árangri innan landnotkunar geta upp að ákveðnu marki og að uppfylltum tilteknum skilyrðum talið sér árangurinn til tekna undir skuldbindingum um samfélagslosun. Búið er að ákvarða hlutdeild aðildarríkja ESB í sameiginlegu markmiði um lágmarkssamdrátt í losun frá landi til 2030, en unnið er að staðfestingu markmiðs fyrir Ísland og Noreg.
Hlutfallsleg skipting landnotkunar (LULUCF) í losunartengda málaflokka.
Söguleg losun vegna landnotkunar frá árin 2005.
Samtals voru 16 loftslagsaðgerðir og loftslagsverkefni skilgreind vegna landnotkunar (LULUCF). Aðgerðirnar eru flestar þvert á málaflokka og eru taldar mikilvægar til að bæta landnotkun í heild sinni. Áhersla er lögð á að ríkið sýni gott fordæmi og leggi fram heildstæða framkvæmdaáætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála á jörðum í eigu ríkisins.