Undir orkuvinnslu fellur sú losun gróðurhúsalofttegunda sem verður til við raforku- og varmavinnslu. Losun vegna orkuvinnslu skiptist milli tveggja viðfangsefna, A: Losun í rekstri jarðvarmavirkjana og B: Bruna jarðefnaeldsneytis til orkuvinnslu. Losun vegna orkuvinnslu var 10% af samfélagslosun Íslands árið 2022.
Losun vegna orkuvinnslu var 10% af samfélagslosun (ESR) Íslands árið 2022.
Losun orkuvinnslu var 270 þ.t CO2ígildi árið 2022. Sú losun skiptist milli tveggja viðfangsefna. 7% af samfélagslosun er til komin vegna losunar í rekstri jarðvarmavirkjana og 3% vegna bruna jarðefnaeldsneytis til orkuvinnslu.
Gert er ráð fyrir 18% samdrætti í losun vegna orkuvinnslu frá 2005 til 2030. Til viðbótar við núverandi þróun hefur samdráttur verið metinn fyrir eina aðgerð um grænt varaafl fyrir atvinnulíf og samfélag. Aðgerðin mun stuðla að auknum samdrætti í bruna eldsneytis til orkuvinnslu.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá vinnslurásum jarðvarmavirkjanna á sér stað í lok framleiðsluferilsins þar sem óþéttanlegar lofttegundir eru aðskildar vatngufu í eimsvala og gassogskerfi og hleypt út í andrúmsloftið. Þessi losun telur 71% af losun orkuvinnslu.
Tæknin til að nýta CO2 í eldsneyti eða binda í berg er í þróun og taka aðgerðir stjórnvalda mið af því. Nýtni hreinsibúnaðar fyrir CO2 fer eftir efnainnihaldi jarðhitavökvans en talið er að nýtni búnaðarins geti orðið allt að 90-95%. Tækifæri liggja í að draga úr losun í rekstri jarðvarmaorkuvera með hagnýtingu í þágu orkuskipta.
Bruni eldsneytis til orkuvinnslu hefur farið vaxandi á síðustu árum og taldi 29% af losun orkuvinnslu 2022.
Bruna eldsneytis til orkuvinnslu má rekja til tveggja þátta. Annars vegar er jarðefnaeldsneyti nýtt sem varaafl fyrir forgangsorku, t.a.m. þegar slæm veður slá út einstaka byggðarlög, og hins vegar í iðnaði sem rekinn er á skerðanlegri raforku, t.a.m. vegna slæms vatnsárs eða óstöðugleika í dreifi- og flutningsneti. Í þessu samhengi er mikilvægt að líta sérstaklega til nýrra lausna á borð við grænt varaafl og orkugeymslu. Slíkar lausnir gætu einnig nýst þeim samfélögum sem standa nærri þess háttar iðnaði.
Taka þarf saman og miðla upplýsingum um bókun losunar frá rekstri jarðvarmavirkjana og samanburði á aðferðarfræði ólíkra landa.
Greina tækifæri, áskoranir og fýsileika mögulegs tilraunaverkefnis með háhitavarmadælur tengdar við fiskimjölsverksmiðjur sem reknar eru á skerðanlegri raforku.
Til að hægt sé að tryggja gagnsæi og áreiðanleika þarf að tryggja að allar virkjanir mæli losunina á sem samræmdastan hátt og að eftirlit sé með þeim mælingum.
Þrepaskipt krafa um útskipti jarðefnaeldsneytis í varaafli raforku- og varmaframleiðslu með endurnýjanlegu eldsneyti og öðrum vistvænum lausnum
Setja þarf kröfu um mælingar á náttúrulegri losun sem styðjast við samræmda aðferðafræði og reglur annarra landa og hæfa íslenskum aðstæðum. Í dag dag er uppi óvissa um hver náttúruleg losun jarðhitasvæða, sem búið er að reisa virkjanir á, hefði verið ef ekki hefði verið virkjað. Þetta gerir það að verkum að öll losun sem kemur frá jarðvarmavirkjun telur inn í losunarbókhald Íslands. Þar sem ekki er hægt að meta þessa náttúrulegu losun eftir að virkjun hefur verið gangsett er mikilvægt að mæla hana áður. Hefja þarf reglubundnar mælingar á þekktum jarðhitasvæðum til að auka þekkingu á þeirri náttúrulegu losun sem verður á þeim svæðum.
Endurskoðun stofnanaskipulags á sviði umhverfis- og orkumála samhliða greiningu og endurhönnun leyfisveitingarferla og kortlagning á mögulegum tækifærum til umbóta er lykilatriði í að hraða verkefnum og framkvæmdum í þágu orkuskipta.
Nýjar jarðvarmavirkjanir sem reistar eru eftir 2030 skulu hannaðar með kolefnishlutleysi að leiðarljósi. Þessi skylda verður lögbundin. Til að auka samkeppnishæfni jarðhitans og hvetja orkufyrirtæki landsins til að nýta þau fjölbreyttu tækifæri sem felast í lágmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda þarf að hanna jarðvarmavirkjanir með það að leiðarljósi að losun þeirra sé haldið í lágmarki og nýtingarmöguleikum í hámarki. Viðfangsefnið skal nálgast af tæknihlutleysi og þannig byggja undir sjálfbærni í nýtingu jarðhita, auka orkuöryggi landsins og samkeppnishæfni jarðhitans.
Loftslagsmarkmið stjórnvalda og sá loftslagsávinningur sem felst í einstaka framkvæmdum á að vera ákvörðunarþáttur í allri áætlanagerð um uppbyggingu og styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku. Leita skal leiða til að forgangsraða þeim verkefnum sem skila mestum loftslagsávinningi.
Þrepaskipt krafa um föngun og geymslu eða hagnýtingu gróðurhúsalofttegunda í vinnslurásum jarðvarmavirkjana og koma þannig í veg fyrir að þær sleppi í andrúmsloftið.
Tryggja þarf fullnægjandi framboð orku ef nýta á innlenda framleiðslu rafeldsneytis eða vetnis fyrir orkuskipti í samgöngum á landi, haftengdri starfsemi og flugsamgöngum. Orkuskipti þessi eru háð tækniþróun og framboði tækjabúnaðar og fjárfestingum í þeim, en tryggja þarf framboð af viðeigandi orkugjöfum. Leið Íslands að fullum orkuskiptum verður mætt í skrefum með aukinni orkuöflun, bættri orkunýtni, auknum orkusparnaði, tækniþróun og aflaukningu núverandi virkjana.
Aukinn kraftur settur í jarðhitaleit og nýtingu fyrir rafkyntar veitur til að fasa út jarðefnaeldsneyti í varaafli. Greining og útfærsla verði unnin með hagaðilum og stjórnvöld muni í samvinnu við orku- og veitugeirann leiða stórfellt átak í kortlagningu auðlinda og möguleika á jarðhitanýtingu.
Móta laga- og tæknilegt umhverfi sem styður við bætta orkunýtni. Talið er að u.þ.b. 1500 GWst gætu sparast með þessu móti, eða 8% af heildarraforkuframleiðslu landsins árið 2022. Nú þegar aflskortur blasir við næstu árin er mikilvægt að nýta græna orku enn betur en áður fyrr enda óumdeilt að orkuskiptin munu krefjast mikillar raforku. Dæmi um þetta eru möguleikar á nýtingu glatvarma frá staðbundnum iðnaði, sem gæti sparað í kringum 50 MW af raforku.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.