Undir landnotkun fellur sú losun gróðurhúsalofttegunda, auk bindingar kolefnis, sem verður til vegna landnotkunar eða breytingar á landnotkun (e. Land use, land-use change and forestry, LULUCF). Losun og binding vegna landnotkunar skiptist milli fimm viðfangsefna, mólendis, votlendis, ræktarlands, byggðar og skógræktar en aðgerðir í málaflokknum eru mótaðar á grundvelli þeirra kerfislægu umbreytinga sem stefna þarf að þvert á viðfangsefni málaflokksins.
Losun málaflokksins er mest vegna mólenidos, votlendis og ræktarlands en binding mest í skógrækt og landgræðslu.
Losun og binding innan landnotkunar skiptist í fimm viðfangsefni. Mólendi losar um 77% af heildarlosun málaflokksins (5971 þ.t.CO2 íg.), Votlendi 11% (845 þ.t. CO2 íg.), Ræktarland 19% (1437 þ.t. CO2.íg) og byggð 0,1% (12 þ.t.CO2 íg.) Skógærkt bindur um 7% af heildinni (-520 þ.t. CO2 íg.)
Tillögurnar ganga þvert á málaflokka og eru taldar mikilvægar til að bæta landnotkun í heild sinni.
Hér er lögð áhersla á að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og leggi fram heildstæða framkvæmdaáætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála á jörðum í eigu ríkisins og á þjóðlendum. Mikilvægt er að stuðningskerfi ríkisins fyrir verkefni í landgræðslu og skógrækt verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að forgangsraða fjármunum ríkisins þannig þeir styðji enn betur við markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum til 2030, mark¬mið um kolefnishlutleysi 2040 og markmiða um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Bætt gögn og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna losunarbókhalds landnotkunar, m.a. með hliðsjón af nýrri LULUCF-reglugerð og nýjum skuldbindingum, eru forgangsaðgerð enda ríkir meiri óvissa um mat á losun og bindingu vegna landnotkunar en öðrum innan losunarbókhalds Íslands.
Talið er að árangursríkasta aðgerðin til að draga úr losun frá landi sé að endurheimta votlendi og mýrlendi. Sérstök áhersla verður lögð á endurheimtarverkefni á jörðum í eigu ríkisins
Vonir standa til að nýtt og endurskoðað styrkjakerfi í landgræðslu og skógrækt fyrir einkajarðir hvetji landeigendur enn frekar til að bæta landnýtingu eigin jarða í þágu loftslagsmála og dragi þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Kannað verður hvort hægt sé að móta aðferðafræði við endurheimt votlendis sem uppfyllir verklag og staðla til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Áætlað er að kortleggja og greina hvort fýsilegt sé að leggja á kolefnisgjald vegna breytinga á landnotkun sem hefur í för með sér umtals¬verða losun gróðurhúsalofttegunda í ljósi þess að slíkar breytingar geta einnig leitt af sér fjárhagslegar skuld¬bindingar fyrir íslenska ríkið.
Til að auka bindingu kolefnis verður lögð áhersla á vernd og endurheimt birkiskóga, ræktun nýrra skóga og endurheimt þurrlendisvistkerfa á jörðum í eigu ríkisins og á þjóðlendu með markvissum hætti og í samræmi við framkvæmdaáætlun og fjármögnun.
Vonir standa til að nýtt og endurskoðað styrkjakerfi í landgræðslu og skógrækt fyrir einkajarðir hvetji landeigendur enn frekar til að bæta landnýtingu eigin jarða í þágu loftslagsmála. Kannað verður hvort hægt sé að móta aðferðafræði við endurheimt þurrlendisvistkerfa sem uppfyllir verklag og staðla til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Einnig er mikilvægt að vinna að aðlögun trjátegunda og skóga að loftslagsbreytingum sem og auka hvata og þekkingu um nýtingu og varðveislu kolefnis í viðarafurðum úr íslenskum skógum á sjálfbæran hátt.
Skipulagsáætlanir sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem þar eru teknar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar og landnotkunar
Með áherslum og aðgerðum í skipulagi er hægt að stuðla að bættri landnýtingu og því er mikilvægt að fyrir liggi leiðbeiningar um hvernig vernda megi kolefnisrík vistkerfi, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með skipulagsgerð. Leitað verður eftir breiðri samvinnu hagaðila á landsvísu um vernd og endurheimt kolefnisríkra vistkerfa og hvar helstu tækifæri liggja í breyttri landnotkun í þágu loftslagsmála og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Auk þess er mikilvægt að greina veikleika í núverandi regluverki og framfylgd þess um verndun votlendis og annarra vistkerfa.
Aðgerðin felur í sér að greina hvar megi bæta landnýtingu í þágu loftslagsmála á jörðum í eigu ríkisins og á þjóðlendum, vinna heildstæða framkvæmdaáætlun með skilgreindum markmiðum og forgangsraða aðgerðum. Ríkissjóður Íslands á tæplega 430 jarðir og æskilegt er að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi um að breyta landnotkun í þágu loftslagsmála. Mikilvægt er að fyrir liggi skýr stefna ríkisins um nýtingu ríkisjarða og þjóðlendna og að í henni séu loftslagsáhrif og vernd líffræðilegrar fjölbreytni höfð að leiðarljósi.
Aðgerðin felur í sér að endurheimta votlendi á jörðum í eigu ríkisins með markvissum hætti í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisins. Miklir möguleikar gætu því legið í endurheimt votlendis á ríkisjörðum og þar með komið í veg fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Land og líf, stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt, gerir ráð fyrir að 15.600 ha af röskuðu votlendi verði endurheimt fyrir 2031, eða um 6% af röskuðu votlendi.
Náttúrulegir birkiskógar þekja nú um 1,5% af landsvæði Íslands en miklir möguleikar eru til að auka útbreiðslu þeirra og þar með kolefnisbindingu. Til þess að svo geti orðið þarf markvissar verndar- og endurheimtaraðgerðir. Tryggja þarf friðun svæða og setja fram áætlun um aðgerðir, t.d. gróðursetningu, og eflingu fræseta, í samræmi við aðferðafræði skógræktar á landslagsheildum (e. Forest Landscape Restoration) og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Mikilvægt er að ríkið setji fram skýra ferla til að auka aðgengi að jörðum í eigu ríkisins fyrir aðgerðir á sviði verndar og endurheimtar birkiskóga.
Skipulagsáætlanir sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem þar eru teknar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar og landnotkunar. Með áherslum og aðgerðum í skipulagi er hægt að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu með ýmsum hætti. Breytt landnotkun hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni og tryggja þarf að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana. Mikilvægt er að útvega sveitarfélögum til þess bær verkfæri ásamt bestu fáanlegu gögnum hverju sinni.
Þátttaka einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í undirbúningi og framkvæmd aðgerða í landgræðslu og skógrækt er lykilatriði til að ná markmiðum á sviði loftslagsmála og vernd líffræðilegrar fjölbreytni í tengslum við landnotkun. Því er mikilvægt að endurskoða og koma upp enn skilvirkara kerfi hvað varðar fjármögnun aðgerða í þágu loftslagsmála á einkalöndum. Auk þess þarf að skilgreina með hvaða hætti Land og skógur hvetji alla geira samfélagsins til þátttöku og efla starf félagasamtaka og einstaklinga.
Aðgerðin felst í gerð verklags fyrir endurheimt votlendis og endurheimt fyrsta votlendisins sem fylgir þeim reglum og stöðlum sem þarf til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Gerð verklagsins er hugsað sem hvatning og fyrirmynd fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að fara í endurheimt votlendis sem uppfyllir reglur og staðla
Miklir möguleikar felast í skógrækt til kolefnisbindingar, ekki síst með ræktun hraðvaxta trjátegunda, og hér á landi væri hægt að auka bindingu kolefnis í skógum landsins. Þær jarðir sem ríkið á og hefur umráð yfir gætu verið nýttar til skógræktar í þágu loftslagsmála. Ríkið þarf að taka afstöðu til þess hvort ráðstafa eigi landi til ræktunar skóga með framandi hraðvaxta tegundum og eins hvort setja þurfi skýr skilyrði í eigendastefnu um hvort nota megi tegundir í ræktun sem geta talist ágengar í skilningi náttúruverndarlaga.
Aðgerðin felur í sér að kortleggja og greina stjórntæki sem vinna að aukinni verndun kolefnisríkra vistkerfa. Greina þarf regluverk sem tengist verndun votlendis og kortleggja veikleika vegna leyfa, heimilda og viðurlaga.
Aðgerðin miðar að því að þróa aðferðir og setja upp langtímavöktunarverkefni til að meta magn og breytingar á kolefni í íslenskum vistkerfum út frá þekktum matsbreytum þannig að eigi síðar en árið 2030 verði hægt að áætla kolefnisforða allra vistkerfa í losunarbókhaldi Íslands, breytingar á kolefnisforða þeirra og áhrif landnýtingar og endurheimtar á kolefnisforða. Sakvæmt auknum kröfum ESB vegna nýrrar reglugerðar um gæði og kröfu gagna og aðferðafræði í LULUCF til að draga úr óvissu og bæta þekkingu og framsetningu þurfa tölur frá öllum helstu landnýtingarflokkunum að vera komin á aðferðaþrep 2 árið 2026, þ.e. stuðlar byggðir á íslenskum rannsóknum, og aðferðaþrep 3 árið 2030, þ.e. stuðlar byggðir á reiknilíkönum fyrir Ísland.
Ríkissjóður Íslands á tæplega 430 jarðir. Möguleikar liggja í endurheimt þurrlendisvistkerfa á þeim jörðum. Skilgreina þarf þær jarðir og þjóðlendur sem eru hentugar til endurheimtar þurrlendisvistkerfa, forgangsraða og skilgreina til hvaða aðgerða þarf að grípa svo hámarksárangur náist.
Unnið verði að gerð svæðis- og landshlutaáætlana í landgræðslu og skógrækt í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög, landeigendur og félagasamtök um áherslur eftir svæðum og hvernig best verði unnið m.a. að markmiðum um kolefnishlutleysi með vernd líffræðilegrar fjölbreytni að leiðarljósi. Með því er grunnur lagður að sameiginlegri sýn á þau tækifæri sem liggja í sjálfbærri nýtingu lands, uppbyggingu auðlinda, jarðvegsvernd og vernd og endurheimt vistkerfa og stuðla þannig að aukinni sátt og samstöðu um aðgerðir.
Stór hluti af íslenskum þurrlendisvistkerfum er í röskuðu ástandi og með endurheimt þeirra má binda mikið kolefni, auka virkni vistkerfa og hlúa að líffræðilegri fjölbreytni. Aðgerðin felst í gerð verklags fyrir endurheimt þurrlendis og endurheimt fyrsta þurrlendis sem fylgir þeim reglum og stöðlum sem þarf til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæða kolefniseiningar. Gerð verklagsins er hugsað sem hvatning og fyrirmynd fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að fara í endurheimt þurrlendis sem uppfyllir reglur og staðla
Aðgerðin felur í sér að koma á fót samstarfsverkefni hagaðila á landsvísu um verndun og endurheimt kolefnisríkra vistkerfa. Viljayfirlýsingin felur í sér ákall um mikilvægi þess að vernda kolefnisrík vistkerfi landsins. Einnig er lögð áhersla á að byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast og líffræðilega fjölbreytni þeirra. Með því að vernda og endurheimta vistkerfi er um leið verið að auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá, ásamt því að auka kolefnisbindingu þeirra.
Aðlaga þarf skóga að loftslagsbreytingum með því að efla val og kynbætur á helstu trjátegundum í íslenskri skógrækt, prófa nýjar tegundir og kvæmi og halda uppi öflugum rannsóknum á aðlögun þeirra. Jafnframt þarf að aðlaga skóga að hugsanlega aukinni tíðni gróðurelda. Er það gert með skipulagi skógræktarsvæða, blöndun tegunda, grisjun á réttum tíma og fellingu og endurnýjun skóga á réttan hátt. Með réttri meðferð skóga er hægt að efla kolefnisbindingu þeirra um leið og þanþolið.
Aðgerðin felur í sér að endurskoða leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana þannig að loftslagsáhrif vegna rasks á kolefnisríkum vistkerfum verði metin og magntekin. Endurskoða þarf leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana þannig að losun gróðurhúsalofttegunda verði metin og magntekin. Leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda voru gefnar út árið 2005, með endurbótum árið 2012, en síðan þá hafa lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana verið uppfærð en leiðbeiningarnar ekki.
Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi og langvarandi kolefnisbindingu í viðarafurðum. Aðgerðin felur í sér að auka þekkingu og búa til hvata til að auka framleiðslu og nýtingu íslenskra viðarafurða. Með aðgerðinni er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis í viðarafurðir og samdrætti í losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis. Með aðgerðinni má einnig draga úr þörf fyrir innflutning á jarðefnaeldsneyti.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.