Undir málaflokkinn ökutæki og innviðir fellur sú losun gróðurhúsalofttegunda sem verður til við eldsneytisbruna í ökutækjum. Aðgerðir vegna losunar frá ökutækjum af ólíkum stærðum og gerðum skiptast milli þriggja viðfangsefna, A. innviðir, B. breyttar ferðavenjur og C. ökutæki.
Losun vegna ökutækja og innviða var 33% af samfélagslosun (ESR) Íslands árið 2022
Losun frá málaflokknum ökutæki og innviðir var 926 þ.t CO2íg. árið 2022 og var hún öll frá ökutækjum, þ.e. fólksbílum, sendibílum, bifhjólum, hóp- og vöruflutningabifreiðum. Ef árangur skal nást í orkuskiptum hinna ýmsu ökutækja er þó mikilvægt að horfa einnig til viðeigandi innviða fyrir afhendingu endurnýjanlegra orkugjafa. Einnig er óumdeilt að mikill loftslagsávinningur felst í eflingu almenningssamgangna og virkra ferðamáta
Gert er ráð fyrir 21% samdrætti í losun vegna ökutækja og innviða frá 2005 til 2030. Til viðbótar við núverandi þróun hefur samdráttur verið metinn fyrir sex aðgerðir.
Innviðir fyrir afhendingu endurnýjanlegra orkugjafa er forsenda fyrir orkuskiptum í samgöngum á landi. Stjórnvöld þurfa að tryggja bæði orkuafhendingu með því að styrkja flutningsnet og dreifiveitu og vinna í samvinnu við atvinnulífið að uppbyggingu hleðsluinnviða fyrir nýja orkugjafa.
Enn ríkir ákveðin óvissa um eftirspurn mismunandi tegunda endurnýjanlegs eldsneytis en til stendur að greina þá möguleika sem verða fyrir hendi og hentugleika þeirra fyrir ólík hreinorkutæki. Þar verður innflutningur og innlend framleiðsla endurnýjanlegra orkugjafa ásamt lífdísil til íblöndunar borin saman út frá magntöku áætlaðs framboðs viðeigandi hráefna, verðlagningu, eftirspurn og viðeigandi innviðum.
Með breyttum ferðavenjum, s.s. aukinni notkun almenningssamgangna, virkum ferðamátum (gangandi eða hjólandi) og deilihagkerfislausnum, má stuðla að beinum samdrætti í losun vegna jarðefnaelds-neytisbruna ökutækja, sér í lagi einkabílsins.
Með skilvirkum lausnum, samþættingu og upplýsingagjöf má stuðla að tilfærslu fólks úr einkabílum í fyrrnefnda kosti. Þá geta fjölbreyttir ferðamátar einnig ýtt undir bætta lýðheilsu, aukin lífsgæði og sveigjanleika í dags daglega í þéttbýli. Þá má tryggja að engin losun verði til við nýtingu almenningssamgangna þegar áhersla er lögð á endurnýjanlega orkugjafa í vögnum.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum kemur til vegna bruna eldsneytis í bifreiðum. Þetta viðfangsefni veldur mestri losun í samfélagslosun Íslands.
Þetta viðfangsefni veldur mestri losun í samfélagslosun Íslands og því er mikilvægt að grípa hratt til aðgerða til að ná fram orkuskiptum. Samdrættinum er unnt að ná með því að nýta endurnýjanlega orkugjafa í auknum mæli en einnig með því að draga úr akstri með breyttum ferðavenjum. Með orkuskiptum ökutækja, sér í lagi rafdrifnum fólksbílum, má ýta undir orkusjálfstæði landsins, sem getur skipt sköpum á tímum alþjóðlegrar óvissu.
Þróun og innleiðing á ítarlegri innviðaáætlun sem skal tryggja skilvirkt net hreinorkuáfyllingarstöðva sem og þjónustustig afhendingar hreinorkukosta.
Ríkið styður við uppbyggingu hjóla- og göngustíga með fjárveitingum, aðlögun regluverks og að mótuð verði stefna og aðgerðaáætlun um virka ferðamáta, m.a. hjólreiða og smáfarartækja.
Ríkið sé fyrirmynd í innkaupum hreinorkuökutækja og vistvænnar samgönguþjónustu með undanþágum, sbr. reglugerð nr. 1330/2023.
Fjárhagslegur stuðningur við uppbyggingu hreinorkuáfyllingarstöðva fyrir vistvæn ökutæki um land allt, sér í lagi flóknar og umfangsmiklar fjárfestingar og tengingar við flutningskerfin.
Áfram verður virðisaukaskattur felldur niður af öllum reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Um er að ræða ferðamáta sem hafa, ásamt göngu, lægsta kolefnissporið. Skattstyrkir tóku fyrst gildi 1. janúar 2020.
Styrkir fyrir kaupum hreinorkuökutækja sem kosta undir 10 m.kr. verða veittir úr Orkusjóði og lækki stuðningurinn í þrepum í takt við tækni- og verðþróun á markaði.
Notendum hreinorkuökutækja tryggðar einfaldar greiðsluleiðir á almennum hleðslu- eða áfyllingarstöðvum, þ.e. með greiðslukortum eða snertilausum búnaði, án þess að þörf sé á áskrift.
Ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinna að uppbyggingu hágæðaalmenningssamgöngukerfis í samræmi við samkomulag um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.
Styrkir fyrir kaupum á hópferðabifreiðum sem ganga fyrir hreinorku verða veittir úr Orkusjóði að undangenginni auglýsingu. Hópferðabifreið skal vera nýskráð í ökutækjaflokkum M2 eða M3.
Ríkið styður við rekstur almenningssamgangna á hreinorku með fjárveitingum og bættu lagaumhverfi, en tryggja þarf viðeigandi tíðni í heildstæðara, skilvirkara og þjónustumiðaðra leiðakerfi um land allt.
Stigvaxandi krafa á söluaðila eldsneytis um lágmarkshlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa seldra til samgangna á landi.
Áætlun verður mótuð og tilraunaverkefni hafið um almenningssamgöngur á hreinorku milli höfuðborgarsvæðis og KEF m.t.t. þjónustuþarfar og aðstöðu farþega.
Stigvaxandi bifreiða- og vörugjöld á ökutæki, knúin jarðefnaeldsneyti, til samræmis við losun þeirra þar til nýskráning ökutækja, knúnum eingöngu jarðefnaeldsneyti, verður óheimil.
Greind verði staða og þróun deilihagkerfis í samgöngum, mótuð stefna og ráðist í aðgerðir til að stuðla að bættu umhverfi fyrir deilihagkerfi í samgöngum.
Mótuð verði og innleidd gagnvirk upplýsingaveita fyrir heildstætt almenningssamgöngukerfi, göngu- og hjólaleiðir.
Í núgildandi reglum um bifreiðahlunnindi er gerður skýr greinarmunur á því hvort um er að ræða bifreið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti eða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan. Lagt er upp með að gera skýrari greinamun í skattmatsreglum tekjuársins 2024 frá og með 1. júlí 2024 til að gera rafmagns-, vetnis- og metanbifreiðar hagstæðari.
Ferðamenn sem koma til landsins séu upplýstir um órjúfanlega tengingu hreinnar orkuöflunar, ósnortinnar náttúru og notkunar hreinorkuökutækja.
Krafa verður gerð um stigvaxandi hlutfall nýskráninga hreinorkuökutækja hjá ökutækjaleigum. Í lok árs 2025 skulu nýskráningar ökutækja í ökutækjaflokkum M1 og N1 hjá ökutækjaleigum vera 30% hreinorkuökutæki. Í lok árs 2026 skulu nýskráningar ökutækja í ökutækjaflokkum M1 og N1 hjá ökutækjaleigum vera 45% hreinorkuökutæki. Í lok árs 2027 skulu nýskráningar ökutækja í ökutækjaflokkum M1 og N1 hjá ökutækjaleigum vera 70% hreinorkuökutæki.
Í eldri aðgerðaráætlun var meginreglan sú að óheimilt yrði að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030 en í skoðun er að flýta þessari tímalínu um tvö ár og einnig er lagt til að útvíkka skráningarbannið þannig að það gildi einnig fyrir ökutæki sem nota blandaða orkugjafa (bæði hreinorkugjafa og jarðefnaeldsneyti).
Óheimilt verði að meginreglu að nýskrá þung ökutæki knúin jarðefnaeldsneyti árið 2035. Bannið verði innleitt í þrepum í takt við tækni- og markaðsþróun.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.