Uppfærsla aðgerðaáætlunar var á höndum tímabundins starfshóps, sem var skipaður þvert á ráðuneyti og stofnanir sem að málaflokknum koma. Starfshópurinn skilaði tillögum til verkefnisstjórnar aðgerðaáætlunar.
Starfshópnum var falið að móta tillögur að aðgerðapökkum fyrir alla málaflokka aðgerðaáætlunar og skipaðir voru sérstakir hópstjórar fyrir hvern málaflokk. Vinnustofur voru haldnar í þeim tilgangi að kortleggja mögulegar aðgerðir og byggði vinnan m.a. á rýni aðgerða úr aðgerðaáætlun 2020, úrbótatillögum úr atvinnugreinasamtali umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins (m.a. Loftslagsvegvísum atvinnulífsins), umbótaáætlun um loftslagsbókhald vegna landnotkunar, annarri stefnumótun stjórnvalda og hugmyndum sérfræðinga og á sambærilegum aðgerðaáætlunum nágrannaríkja. Þær tillögur að aðgerðum sem komu fram á vinnustofum voru síðan mótaðar og þróaðar frekar innan faghópa og í samtali sérfræðinga innan Stjórnarráðsins, stofnana og hagaðila. Vinna starfshópsins og vinnuhópanna var kynnt og afhent verkefnastjórn aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum í janúar sl. sem síðan hefur leitt samtal innan viðeigandi ráðuneyta.
Í samtali við atvinnulífið fór fram greining á því hvaða loftslagsaðgerðir væru raunhæfar en jafnframt metnaðarfullt að setja fram til að ná fram nauðsynlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda út frá áætlaðri losun hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Í vinnunni lögðu fulltrúar atvinnugreina mat á þær kerfislegu úrbætur sem þyrfti að ráðast í, bæði til að hraða innleiðingu viðkomandi aðgerða og ryðja hindrunum úr vegi.
Jafnframt var haldin vinnustofa með fulltrúum sveitarfélaga þar sem var rætt um loftslagsaðgerðir á sveitastjórnarstigi og mögulega aðkomu sveitarfélaga og landshlutasamtaka að aðgerðaáætluninni.
Lögum samkvæmt ber að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á amk. 4 ára fresti. Síðasta áætlun var gefin út árið 2020.
Framreikningar er varða samdrátt í losun voru unnir af Umhverfisstofnun og Orkustofnun.
Ákveðið var að nýta reiknilíkön og aðferðafræði Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Það er gert annars vegar svo samdráttarmat í aðgerðaáætlun endurspegli með sem bestum hætti framreikninga um losun Íslands, sem skilað er annað hvert ár til Evrópusambandsins, og hins vegar þar sem söguleg losun byggir á sömu aðferðafræði en hún leggur grunninn fyrir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Orkuskiptalíkan Orkustofnunar var notað til að meta samdráttaráhrif vegna jarðefnaeldsneytisnotkunar. Líkanið er öflugt og hraðvirkt tól sem til að meta áhrif breyttra forsenda á eldsneytisnotkun og losun vegna hennar. Aðferðafræði Umhverfisstonunar var notuð til að meta alla aðra losun, fyrir utan hagræna hvata til umskipta og breytingar á hegðun almennings í átt að notkun almenningssamgangna og virkra ferðamáta s.s. hjólreiða, rafskúta og þess að ganga á milli staða.
Misjafnt er milli málaflokka hvaða forsendur liggja til grundvallar útreikingum en í öllum tilfellum eru grunngögn, eins og t.d. fjöldi búfjár, magn úrgangs eða eldsneytisnotkun, notuð til að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda. Spáð er fyrir um þróun grunngagnanna og losunin reiknuð í kjölfarið. Notast er að hluta við opinberar spár, eins og t.d. mannfjöldaspá og spá um landsframleiðslu hjá Hagstofu Íslands.
Samdráttur til ársins 2030 verður annars vegar vegna líklegrar þróunar í losun og hins vegar vegna áhrifa stakra aðgerða í aðgerðaáætlun sem metnar eru sérstaklega. Samanlögð áhrif birtast í mismunandi sviðsmyndum.
Hagrænir hvatar til umskipta, breytingar á hegðun almennings og almenningssamgöngur er ekki hægt að reikna með þeim líkönum sem Umhverfisstofnun og Orkustofnun nota. Aðgerðirnar verða metnar sérstaklega af hópi sérfræðinga hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.
Lagt var upp með að vinnan við uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum myndi útvíkka eignarhald Stjórnarráðsins á aðgerðaáætluninni, ásamt því að mikil áhersla var lögð á samstarf við atvinnulíf og stofnanir. Dreift eignarhald Stjórnarráðsins birtist m.a. í því að flest ráðuneyti bera ábyrgð á aðgerðum í áætluninni
Ein undirstaða uppfærslunnar var samtal umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis við atvinnulífið. Í samtalinu við atvinnulífið fór fram greining á því hvaða loftslagsaðgerðir væri raunhæft en jafnframt metnaðarfullt að setja fram til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda út frá áætlaðri losun hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Í vinnunni lögðu atvinnugreinarnar mat á þær kerfislegu úrbætur sem þyrfti til, bæði til að hraða innleiðingu viðkomandi aðgerða og ryðja hindrunum úr vegi.