Markmið og stefna

Flýtileiðir

Markmið

Til að ná tilsettum árangri í loftslagsmálum hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að ná að lágmarki 55% samdrætti í heildar losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við 1990 í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi.

Búið er að ákvarða hlutdeild aðildaríkja ESB í sameiginlegu markmiði um lágmarks samdrátt í samfélagslosun til 2030, en unnið er að staðfestingu markmiðs fyrir Ísland og Noreg. Út frá fyrirliggjandi reiknireglum mætti áætla að hlutdeild Íslands í markmiði um samfélagslosun (ESR) verði allt að 41% samdráttur. Þá hafa íslensk stjórnvöld sett sér metnaðarfullt sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í samfélagslosun fyrir árið 2030 miðað við 2005, lögfest markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og talað skýrt fyrir því á alþjóðavettvangi að láta af notkun og niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.

Stefna

Loftslagsmál eru víðfeðmur málaflokkur og er víða skörun við aðra flokka umhverfismála. Í uppfærðri aðgerðaáætlun eru mikil tengsl við aðrar umhverfisstefnur stjórnarráðsins.

Aðgerðir sem falla undir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum falla í sumum tilfellum einnig undir aðrar aðgerðaáætlanir stjórnvalda. Þannig falla t.d. aðgerðir í samgöngum á landi sumar hverjar undir samgönguáætlun og aðgerðir í landbúnaði undir verkefni um loftslagsvænan landbúnað og umbótaáætlun vegna landnotkunar svo dæmi séu nefnd.  Ásamt því að skarast við aðrar umhverfisstefnur stjórnvalda skarast loftslagsmál gjarnan við aðra umhverfisþætti. Mikilvægt er að aðgerðir þessarar áætlunar hafi ekki neikvæð áhrif á markmið stjórnvalda og framgang verkefna um aðra umhverfisþætti.

Í uppfærðri aðgerðaáætlun eru aðgerðir því metnar m.t.t. skörunar og þeir þættir sem tekið er tillit til (ef við á) eru:

  • Aðlögun að loftslagsbreytingum
  • Náttúruvernd og líffræðileg fjölbreytni
  • Orka
  • Hringrásarhagkerfi
  • Haf- og/eða vatnamál
  • Loftgæði

Ekki er gerð frekari greining á umfangi skörunar aðgerða og annarra umhverfisþátta. Verkefnisstjórn og ábyrgðaraðilar aðgerða bera ábyrgð á slíkum greiningum fyrir framkvæmd aðgerðanna.