Einn grundvöllur skilvirkrar loftslagsstefnu er innleiðing aðgerða sem stuðla að kerfislægri umbreytingu alls samfélagsins í átt að kolefnishlutleysi. Samfélagið þarf að vera virkur þátttakandi í loftslagsvegferðinni og hún þarf að gerast á forsendum jafnréttis og réttlátra umskipta. Upplýsingar um loftslagsmál þurfa að vera öllum aðgengilegar. Menntun og fræðsla þarf að þróast með þeim umbreytingum sem eiga sér stað og nauðsynlegt er að áhersla stjórnvalda á loftslagsmál birtist í rannsóknum og allri þróun samfélagsins.
Menntastofnanir landsins spila lykilhlutverk í loftslagsaðgeðrum og orkuskiptum. Með áherslum á loftslagsbreytingar í grunn- og menntaskólum má ýta undir meðvitund og skilning á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á daglegt líf fólks.
Þá nýtist hærra menntunarstig til að bregðast við þeim kerfislegu umbreytingum sem eiga sér stað, sér í lagi á atvinnumarkaðnum. Með markvissri iðnmenntun, háskólamenntun, endurmenntun og símenntun má tryggja aðlögun starfsfólks og réttlát umskipti á atvinnumarkaðnum.
Áskorunum tengdum loftslagsmálum verður best mætt með öflugu vísindastarfi, rannsóknum, þróun og nýsköpun.
Stjórnvöld geta með markvissum hætti beint hugviti og þekkingu landsins í átt að loftslagslausnum gegnum háskóla-, nýsköpunar- og rannsóknasamfélagið með þeim tólum sem fyrir hendi eru. Þá hafa stjórnvöld einnig á sínum snærum sjóðakerfi, sem beita má með markvissari hætti í þágu loftslagsmála og loftslagsmiðaðra lausna.
Til að virkja samfélagið allt í þágu loftslagsmála og orkuskipta er mikilvægt að upplýsingar séu aðgengilegar og á skiljanlegu máli.
Með skýrri upplýsingagjöf til almennings er átt við túlkun og aðlögun viðkomandi upplýsinga svo miðlun þeirra beri tilætlaðan árangur. Hafa ber í huga þverlæga tengingu loftslagsmála við aðra þætti í daglegu lífi almennings, s.s. lýðheilsu. Því er þeim mun mikilvægara að upplýsingum um viðeigandi tengingu sé haldið til haga og miðlað með markvissum hætti.
Stefnumótun þvert á Stjórnarráðið þarf að endurspegla markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aukna bindingu kolefnis.
Með tengingu aðgerðaáætlunar við aðrar stefnur stjórnvalda er líklegra að þau markmið sem við höfum sett okkur, bæði í loftslagsmálum og öðrum umhverfis og samfélagsflokkum náist. Áætlanir byggðar á traustum grunni eru líklegri til árangurs og því mikilvægt að upplýsingaöflun sé gerð með stöðluðum og markvissum hætti.
Loftslagsbreytingar valda stórtækum breytingum á samfélagi okkar, hvort sem það er í daglegu lífi, á vinnumarkaðnum eða í umhverfinu.
Réttlát umskipti og sjálfbær þróun er áherslumál stjórnvalda og lykilþáttur í að tryggja velsæld og góð lífskjör fyrir samfélagið allt. Aðgerðaáætlun þessi verður því greind út frá áhrifum á ólíka samfélagshópa, m.a. svo unnt sé að meta þörf á mögulegum mótvægisaðgerðum eða aðlögunum.
Heildstæð nálgun á innleiðingu sjálfbærnimenntunar á öllum skólastigum, með áherslu á stefnu um loftslagsvæna skóla, aðalnámskrár sem og kennaramenntun og starfsþróun.
Endurskoðun á opinberum stuðningi við fjármögnun nýsköpunar, bæði hvað varðar styrki gegnum samkeppnissjóði og þátttöku í fjármögnun sprotafyrirtækja.
Auka gagnaöflun og rannsóknir til að styðjast við í upplýsingagjöf um loftslagsmál. Miðlunarstefna þarf að fylgja með samræmdri orða- og hugtakanotkun til að auka skilning á málefninu og höfða til samfélagsins alls.
Aðlaga loftslagsstefnu Stjórnarráðsins svo hún nái einnig yfir ríkisstofnanir og vinna sömuleiðis að nýrri aðgerðaáætlun fyrir 2024-2027.
Móta leiðbeiningar um mat samfélagslegra áhrifa aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og ferli til að aðlaga aðgerðir að markmiðum um réttlát græn umskipti.
Beita árangurstengdri fjármögnun háskólastigsins til að stuðla að aukinni sjálfbærni og langtímahagvexti byggðum á hugviti og þekkingu.
Framlög í íslenska samkeppnissjóði og samstarfsáætlanir ESB hafa verið aukin, en unnið er að endurskoðun og endurskipulagningu til aukinnar skilvirkni og áhrifa í þágu samfélags og loftslagsmála.
Meta hvaða lýðheilsuvísa vantar, hvaða gögn eru til og hvaða gögn vantar til að fjölga lýðheilsuvísum vegna loftslagsáhrifa, ásamt því að skilgreina, finna og birta fleiri loftslagstengda vísa
Leggja fram skýrslu um áherslur stjórnvalda vegna orkuskipta og nauðsynlegra innviða og framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa út frá framboði hráefna og eftirspurnar á markaði.
Skipaður verði starfshópur til að vinna tillögu að framtíðarsýn, markmiðum og aðgerðaráætlun til að lágmarka neikvæð smitáhrif Íslands.
Þróa þarf námsfyrirkomulag í sí- og endurmenntun sem auðveldar sjálfbær umskipti með þjálfun starfsfólks til að mæta breyttum hæfniskröfum og markaðsforsendum.
Endurskoða gátlista heilsueflandi starfs á vegum embættis landlæknis m.t.t. loftslagsáherslna, velsældarhagkerfis og ábyrgrar neyslu, til að styðja markvisst við sveitarfélög, skóla og vinnustaði.
Fjárhagslegt framlag í sérstaka sjóði UNFCCC með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í lág- og millitekjuríkjum og styðja við viðbrögð þróunarríkja vegna loftslagsvár.
Innleiða áherslur norrænu ráðlegginganna um mataræði (NNR 2023) í opinberar ráðleggingar um mataræði að teknu tilliti til íslenskra aðstæðna.
Móta og skýra áframhaldandi samstarf ríkis og sveitarfélaga með vísan til loftslagsmarkmiða Íslands.
Unnið verði að leiðbeiningum um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis.
Einfalda skil á umhverfisupplýsingum rekstraraðila, m.a. upplýsingum um hráefnanotkun og um losun mengandi efna, þ. á m. gróðurhúsalofttegunda.
Innleiða Evróputilskipun og ESRS-staðla til að samræma sjálfbærniupplýsingar í reikningsskilum hagaðila á Íslandi.
Setja þarf fram viðmiðunarmörk (leiðbeiningar og aðferðafræði) sem notuð verða til að leggja mat á loftslagsáhrif lagafrumvarpa.
Greint verður hvernig efla má bolmagn sveitarfélaga til þess að móta loftslagsaðgerðir og fylgja þeim eftir með frekari leiðbeiningum og mælaborði losunar.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.