Áskoranir í loftslagsmálum

Flýtileiðir

Orkuskipti

Orkuskipti í samgöngum er meðal þeirra aðgerða sem getur skilað hvað mestu til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda hér landi. Tæknilega eru orkuskipti einkabíla komin vel á veg, og hröð þróun hefur átt sér stað í tæni til orkuskipta í stærri farartækjum og vinnutækju.

Strax í upphafi 20. aldarinnar hófu framsýnir Íslendingar að framleiða raforku með vatnsafli, og seinna varð mikil þróun í nýtingu jarðvarma til húshitunar í stað kola og olíu. Fyrstu og öðrum orkuskiptum er því lokið hér á landi, og þau sem eftir standa, orkuskipti í samgöngum, eru háð tæknilausnum sem sumar eru komnar vel á veg en aðrar enn íþróun. Orkuskipti í samgöngum hafa gengið vel undanfarin ár, og hefur nýskráningarhlutfall hreinorkubifreiða verið því hæst sem gerist í heiminum undanfarin ár.

Orkuskipti í samgöngum er mjögmikilvæg aðgerð í aðgerðaáætlun stjórnvalda og hafa mikið að segja þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun. Orkuskipti einkabíla eru tæknilega vel á veg komin, og hröð þróun hefur verið undanfarin ár á tækni til orkuskipta í stórum og smáum flutningabílum sem og langferðabílum. Önnur tækni s.s. vegna skipaflutninga og flugs, bæði innanlands og alþjóðaflugs er skemur á veg komin og eru lausnirnar ekki orðnar hagkvæmar í innkaupum eða rekstri. Leita þarf leiða til að fjármagna tilraunaverkefni um orkuskipti skipa og flugvéla, og undirbúa innviði þannig að þeir verði tilbúnir þegar tæknin hefur þroskast nægilega til að ná markaðshlutdeild.

Aðgerðir sem falla undir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum falla í sumum tilfellum einnig undir aðrar aðgerðaáætlanir stjórnvalda. Þannig falla t.d. aðgerðir í samgöngum á landi sumar hverjar undir samgönguáætlun og aðgerðir í landbúnaði undir verkefni um loftslagsvænan landbúnað og umbótaáætlun vegna landnotkunar. Ásamt því að skarast við aðrar umhverfisstefnur stjórnvalda skarast loftslagsmál gjarnan við aðra umhverfisþætti. Mikilvægt er að aðgerðir þessarar áætlunar hafi ekki neikvæð áhrif á markmið stjórnvalda og framgang verkefna um aðra umhverfisþætti.

Landnotkun

Landfræðileg staða Íslands hefur áhrif á tækifæri til þess að auka upptöku gróðurhúsalofttegunda t.d. með skógrækt og landgræðslu.

Aðstæður til skógræktar eru óhagstæðari á Íslandi en víða erlendis vegna þess hversu norðarlega landið liggur á hnettinum. Því gengur hægar að auka við upptöku gróðurhúsalofttegunda með skógrækt og/eða annarri ræktun til að vinna á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem til kemur vegna landnotkunar.

Fyrirséð er að uppfærðar skuldbindingar í samræmi við hert markmið um 55% samdrátt til 2030 muni fela í sér auknar kröfur fyrir Ísland, bæði vegna kröfu um samdrátt í nettólosun frá landi, en einnig vegna aukinna og breyttra krafna um gæði gagna sem liggja til grundvallar mati á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis. Samkvæmt skuldbindingum munu kröfur um samdrátt og/eða aukna bindingu landnotkunar aukast frá og með árinu 2026. Búið er að ákvarða hlutdeild aðildarríkja ESB í sameiginlegu markmiði um lágmarkssamdrátt í losun frá landi til 2030, en unnið er að staðfestingu markmiðs fyrir Ísland og Noreg.  Helstu tækifærin liggja í endurheimt kolefnisríkra vistkerfa til að draga úr losun frá landi, sér í lagi endurheimt votlendis, enda megi rekja 90% losunar í flokknum mólendi til votlendis sem hefur verið framræst í 20 ár eða meira og hefur aukin framræsla á síðustu áratugum leitt til aukinnar losunar.

Endurheimt votlendis er einnig talin árangursríkasta aðgerðin til að ná markmiðum og skuldbindingu fyrir árið 2030 og þarf að skoða jarðir í eigu ríkisins og þjóðlendur sérstaklega í því samhengi.

Bætt gögn og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna losunarbókhalds landnotkunar, m.a. með hliðsjón af nýrri LULUCF-reglugerð, eru forgangsaðgerð enda ríkir meiri óvissa í þessum losunarflokki en öðrum innan losunarbókhalds Íslands.