Undir málaflokk landbúnaðar fellur sú losun gróðurhúsalofttegunda sem verður til við ýmsa ferla í landbúnaði, bæði við búfjárhald, landnotkun og áburðarnotkun, og bruna jarðefnaeldsneytis við notkun tækja og vinnuvéla. Aðgerðir vegna losunar í landbúnaði skiptast í fjögur viðfangsefni, A. loftslagsvænni landbúnað, B. áburðarnotkun í landbúnaði, C. búfé og D. framræst ræktarland. Losun vegna landbúnaðar var 22% af samfélagslosun (ESR) Íslands árið 2022.
Losun vegna landbúnaðar var 22% af samfélagslosun (ESR) Íslands árið 2022.
Losun landbúnaðar voru 618 þ.t. CO2 ígildi árið 2022. Sú losun skiptist þannig á milli viðfangsefna: 5% af samfélagslosun er vegna áburðarnotkunar í landbúnaði, 14% vegna búfjár, 2,5% vegna losunar á framræstu ræktarlandi og 1,1% vegna annarra losunar þvert á landbúnað.
Gert er ráð fyrir 16% samdrætti í losun frá landbúnaði frá 2005 til 2030. Til viðbótar við núverandi þróun hefur samdráttur verið metinn fyrir sex aðgerðir, þrjár vegna áburðarnotkunar í landbúnaði og þrjár vegna búfjárhalds
Undirstaða þess að árangri sé náð í samdrætti losunar í landbúnaði er að aðgerðir stuðli að aukinni sjálfbærni í rekstri. Breytingar í rekstri búa, sem bera með sér loftslags- og umhverfisávinning, geta verið hagkvæmari en hefðbundnar aðferðir og því mikilvægt að bændur séu upplýstir um slíkan ávinning.
Loftslagsvænni landbúnaður þarf að byggja á rannsóknum, ráðgjöf og greinargóðri upplýsingamiðlun. Með breiðri innleiðingu slíkra aðferða geta einnig gæði matvæla, uppskera, heilbrigði jarðvegs, líffræðileg fjölbreytni og upptaka áburðarefna aukist. Skyldi svæði losna á jörðum sökum bestunar má skoða ræktun repju til lífeldsneytisframleiðslu, sem ýtir undir orkusjálfstæði og samdrátt samfélagslosunar í samgöngum.
Áburðarnotkun hefur í för með sér umtalsverða losun, þ.e. notkunar tilbúins áburðar og búfjáráburðar og telur hún 22% af losun landbúnaðar. Svo draga megi úr þessari losun þarf að bæta nýtingu áburðarefna.
Tækifæri liggja í innleiðingu nákvæmnisdreifingar áburðar á tún, bæði niðurfellingu búfjáráburðar og bestun dreifingar byggt á upplýsingum um áburðar- og kölkunarþörf. Slíkar dreifingar geta haft í för með sér allt að 5-15% sparnað í áburðarnotkun, jafnvel 15-25% ef aðrar aðferðir loftslagsvæns landbúnaðar á borð við jarðvegssýnatöku eru einnig nýttar. Þá geta skýrar gæðakröfur um lífrænan áburð einnig byggt grundvöll fyrir innlenda framleiðslu áburðarefna sem nýta úrgang úr matvælaiðnaði eða úrgangsvinnslu.
Losun frá búfé á sér einkum stað vegna iðragerjunar í nautgripa- og sauðfjárrækt og geymslu búfjáráburðar og telur hún 62% af losun landbúnaðar.
Mikilvægt er að stuðla að samdrætti í losun hvers þess grips og ýta undir aukna framleiðni gripa á sama tíma og stuðlað er að matvælaöryggi í landinu. Skilvirkustu aðferðir til að draga úr losun frá búfé felast í breyttum framleiðsluháttum og byggjast á bættri þekkingu um losun íslenskra gripa. Tímasetningar burðar og slátrunar geta skipt máli, sem og fóðrun og íblöndun.
Losun frá framræstu ræktarlandi tekur eingöngu til losunar glaðlofts og telur hún 11% af losun landbúnaðar.
Svo draga megi úr loftslagsáhrifum vegna jarðræktar þarf að takmarka eins og kostur er ræktun á lífrænum jarðvegi og færa ræktun á steinefnajarðvegi eftir því sem aðstæður leyfa.
Setja upp umhverfisbókhaldskerfi sem nýtist býlum í landbúnaði.
Safna með kerfisbundnari hætti jarðvegssýnum úr ræktuðu landi og nota þær upplýsingar til að bæta nýtingu áburðarefna.
Aðgerðin felur í sér rannsókn á iðragerjun íslensks búfjár.
Jarðræktarstyrkir verði endurskoðaðir þannig að þeir stuðli að jákvæðum loftslagsáhrifum við meðferð ræktarlands. Með aðgerðinni eru bændur hvattir til að bæta meðferð ræktarlands. Ákvæði verða sett í samninga og reglugerðir til að koma í veg fyrir að bændur fari í verkefni sem hafa neikvæð áhrif m.t.t. loftslagsmála og stuðningskerfi jafnframt nýtt til að ýta undir góða meðferð ræktarlands í loftslagslegum skilningi. Í aðgerðinni verður jafnframt leitað eftir að meðferð búfjáráburðar og lífrænna áburðarefna verði með þeim hætti að sem minnst töp verði við meðhöndlun og dreifingu. Skoða þarf hvort herða þurfi á ákvæðum reglugerðar 804/1999 sem fjallar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri. Mögulega þarf einnig að vekja meiri athygli á þessum reglum að þeim sé fylgt eftir. Þessi aðgerð tengist jafnframt aðgerð sem snýr að geymslu búfjáráburðar. Aðgerðin byggir a eftirfarandi: - Skilyrði séu sett fyrir jarðræktarstyrkjum, að akrar séu unnir að vori og ekki opnir yfir vetur. - Jarðræktarstyrkir fáist greiddir til að koma sendnum jarðvegi í ræktunarhæft ástand - hámark 2 ár. - Jarðræktarstyrkir eru ekki greiddir út á ræktun á framræstum lífrænum jarðvegi nema sýnt sé fram á að aflað hafi verið til þess framkvæmdaleyfis. - Jarðræktarstyrkir verði hærri þar sem ræktað er á steinefnajarðvegi en á lífrænum jarðvegi.
Heildstæð ráðgjöf um loftslagsmál í landbúnaði verður efld byggt á reynslu úr verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður (LOL).
Hvetja bændur til að nýta tæknilegar lausnir til að bæta áburðarnýtingu, svo sem nákvæmnisdreifibúnað, með viðeigandi loftslagsstyrkjum.
Gerð verður rannsókn á þætti geymslu búfjáráburðar í losun frá landbúnaði og greining á leiðum til að draga úr losun við geymslu
Þróun og prófun heildstæðs kerfis sem hvetur bændur til hagkvæmari og loftslagsvænni búskaparhátta og verður tilbúið til innleiðingar árið 2026.
Styðja við aðgerðir eins og kölkun á ræktuðu landi til að hækka sýrustig, notkun á niturbindandi tegundum í ræktun og skjólbeltarækt til að draga úr áburðarþörf.
Aðgerðin felur í sér að styðja bændur til notkunar á íblöndunarefnum sem draga úr losun frá iðragerjun jórturdýra.
Aðgerðin felur í sér mótun tillögu að gæðakröfum vegna nýtingar lífbrjótanlegra efna sem áburð fyrir fóður- og matvælaframleiðslu
Aðgerðin miðar að því að auka framleiðni nautgripa til framleiðslu á mjólk og nautakjöti, þ.e. ná fram auknum afurðum á hvern grip.
Aðgerðin miðar að því að auka framleiðni sauðfjár til framleiðslu á dilkakjöti, þ.e. ná fram auknum afurðum á hvern grip.
Aðgerðin felur í sér að skilgreina aðferðafræði til að taka landnotkun með í útreikninga á kolefnisspori matvælaframleiðslu.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.