Til að tryggja að aðgerðir komst til framkvæmda, skilvirka innleiðingu þeirra og sýnilegan árangur fyrir 2030 hefur ráðherra forgangsraðað aðgerðum með tilliti til kostnaðar- og ábatagreiningar ásamt mati á félagslegum áhrifum og þverlægum áhrifum aðgerða.
Boðleiðir verða styttar með framkvæmdateymum sem vinna þvert á stjórnkerfið og í samtali við haghafa við útfærslu, innleiðingu og eftirfylgni aðgerða. Teymin upplýsa verkefnisstjórn loftslagsaðgerða reglulega um framvindu innleiðinga og framgang aðgerða.
Ísland stefnir að því að draga saman samfélagslosun um 41% fyrir árið 2030 og 50-55% fyrir árið 2035. Þá er ætlunin að draga saman losun frá landi um 400-500 kt. CO₂ íg. fyrir 2035 miðað við 2025 og lögð verður áhersla á nýsköpun og tækniþróun til þess að takmarka losun frá starfsemi undir ETS-viðskiptakerfinu. Skilvirk innleiðing loftslagsaðgerða er lykilatriði til að árangur náist.
Stjórnvöld setja orkuskipti á landi og bætta landnotkun í forgang. Áskoranir í loftslagsmálum eru bæði staðbundnar og hnattrænar og eru þær aðstæður og áskoranir sem uppi eru á Íslandi að sumu leyti frábrugðnar þeim sem sjást í löndunum í kringum okkur. Þessi sérstaða endurspeglast í markmiðum Íslands, sem eru sett fram í þrennu lagi, og einnig í forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar.
Mikilvægt er að aðgerðir í loftslagsmálum séu metnar með tilliti til samfélagslegra áhrifa, jafnréttis og áhrifa á aðrar stefnur og samninga sem stjórnvöld hafa undirgengist.